Bláfjallagangan, 9. apríl 2012 (annan í páskum)

Forskráningu í Bláfjallagönguna lokið

Nú hefur verið lokað fyrir forskráningu í Bláfjallagönguna. Þeir, sem enn hafa ekki komið því í verk að skrá sig, geta þó enn verið með því hægt verður að skrá sig í skála Ullar í Bláfjöllum frá kl. 10:30 í fyrramálið. Þeir, sem hefja gönguna kl. 12:30 (2 km og þeir sem telja sig þurfa meira en 2 klst. fyrir 20 km göngu) þurfa að ljúka skráningu fyrir kl. 12:00 en aðrir fyrir kl. 12:30.

Áburðarráð fyrir Bláfjallagönguna

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvað best sé að bera undir skíðin í Bláfjallagöngunni á morgun. Að bestu manna yfirsýn verður dæmigert klísturfæri, þótt lítið eitt hafi snjóað í morgun er ekki líklegt að sá snjór skipti neinu máli á morgun þegar búið er að vinna brautina. Það er því ráðlegt að hreinsa skíðin vel í kvöld og bera þunnt lag af ísklístri á festusvæðið og láta það kólna vel. Ofan á það kemur svo klístur morgundagsins sem gæti heitið „Universal“ eða „Multigrade“ eftir því hver framleiðandinn er.

Fréttir úr Bláfjöllum á páskadag:

Þóroddur formaður hringdi úr Bláfjöllum um kl. 11 og hafði þær fréttir að færa að þar væri vissulega nokkur strekkingur en þó langt frá því að vera nokkurt aftakaveður og skv. veðurspám á heldur að lægja síðar í dag. Þarna er nýlögð 5 km göngubraut og ágætt færi. Hiti er undir frostmarki og aðeins hefur snjóað, þó ekki svo mikið að það skafi neitt að ráði. Uppi á heiði hefur hins vegar snjóað meira og þar er dálítill skafrenningur. En það er tilvalið að bregða sér á skíði og taka síðustu æfingu fyrir Bláfjallagönguna á morgun!

Smellið á myndina til að sjá hana stærri!

Skíðatímabilið er ekki búið. Þrátt fyrir hlýindi er enn nógur snjór í Bláfjöllum og Bláfjallagangan, sem við þurftum því miður að fresta í byrjun mars, fer fram við skála Ullar annan í páskum. Meiri upplýsingar fást með því að smella á myndina hér til hliðar. Það er eindregið óskað eftir að væntanlegir keppendur auðveldi okkur undirbúninginn með því að skrá sig hér á vefnum. Það má gera með því að smella á myndina efst í dálkinum hér til hægri og þar er einnig krækja í síðu með enn meiri upplýsingum.

Bláfjallagangan er almenningsganga sem þýðir einfaldlega að það eru allir velkomnir og keppnina sem slíka þarf ekki að taka alvarlegar en hverjum hentar. Fjölmennum í Bláfjöll og njótum skemmtilegrar skíðagöngu, vonandi í frábæru páskaveðri!

Allir geta unnið!   Eftir gönguna verður kaffihlaðborð og verðlaunaafhending í skála Breiðabliks. Allir þátttakendur fá lukkunúmer og úr þeim verður dregið um ýmsa ágæta vinninga, m.a. frá útivistarverslununum CraftSport á Ísafirði og Everest. Þá munu páskaegg frá Góu o.fl. fljóta með!

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur