Athyglisverður pistill frá Gauta Grétarssyni sjúkraþjálfara.

Sendi ykkur smá hugleiðingu um þjálfun

Hreyfing er talin vera góð til að viðhalda líkamlegu og andlegu atgervi.

Rannsóknir sýna að hæfileg hreyfing komur í veg fyrir sjúkdóma og bætir heilsu þegar til lengdar lætur.

Á heimasíðu Landlæknisembættisins segir:

Mælt er með að lágmarkshreyfing til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma er 30 mínútna hreyfing á dag með hóflegri áreynslu, hvort heldur það er rösk ganga, sund, hjólreiðar, margvíslegir leikir eða dans eða jafnvel það að hreinsa til í garðinum eða gera hreint heima hjá sér. Hreyfingin gerir sama gagn þótt 30 mínútum sé skipt í nokkrar styttri lotur yfir daginn.

Á síðustu árum hefur svo kölluðum líkamsræktarstöðvum fjölgað og fjöldi þeirra sem þangað leitar eftir þjónustu aukist. Samhliða þessari aukningu hefur orðið veruleg aukning á svo kallaðri ofurþjálfun sem kallað er hinum ýmsu nöfnum. Er því haldið fram að árangur af þessari þjálfun sé mikill.

Í tómarúmi fjölmiðla eftir bankahrun hafa þeir leitast við að búa til nýja útrásarvíkinga og hetjur . Hetjurnar hafa þeir fundið í einstaklingum og hópum sem stunda ofuríþróttir þar sem markmiðið er að ögra líkamanum meira og meira. Er nú svo komið að enginn er maður með mönnum nema að hann hlaupi Laugaveginn, gangi á Hvannadalshnjúk, hlaupi tvöfalt maraþon á sérsmíðuðum spelkum eða gangi á 7 tinda á sama sólarhring.

Sumar af þjálfunaraðferðunum sem notaðar eru við þjálfun hópa og einstaklinga eru langt frá því að vera viðurkenndar og er nú svo komið að þessar aðferðir eru farnar að smitast yfir á hefðbundnar íþróttagreinar. Endurtekningar í þjálfunarlotum eru ekki lengur 3 x 10 heldur er farið að nota einingar eins og 3 x 100 og 1 x 300. Þetta minnir óneitanlega á bankaævintýrið þegar milljónir urðu milljarðar og eitthvað álíka. Nýjasta nýtt er að nú er farið að auglýsa þessa þjálfun fyrir börn og unglinga.

Á sama tíma og talað er um börn í verkssmiðjum í Asíu finnst okkur í lagi að börnin okkar séu í þjálfun og æfingum marga tíma á dag, allt undir nafni heilsuræktar og markaðssetningar líkamsræktarstöðva og sífellt vaxandi hóps þjálfara.

Í starfi mínu sem sjúkraþjálfari hefur á síðustu misserum orðið mikil aukning á meiðslum, áverkum og álagseinkennum sem rekja má til allt of mikillar þjálfunar einstaklinga.

Tíminn og kostnaðurinn sem fer í þessar viðgerðir, vonbrigðin sem einstaklingar verða fyrir þegar þeir geta ekki lengur setið, hreyft sig í leik og starfi er ekki þekktur.

Nú er aldamótakynslóðin búin að skila sér yfir móðuna miklu. Einstaklingar sem öttu harða lífsbaráttu til að byggja upp landið. Það sem einkenndi þessa kynslóð var slit í baki, mjöðmum og hnjám eftir mikla vinnuhörku á sjó og landi.

Hvað bíður okkar og barnanna okkar sem stunda ofurþjálfun vitum við ekki en eitt er víst. Kostnaðurinn mun auka útgjöld og skatta í framtíðinni til að borga afleiðingarnar.

Kveðja Gauti

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur

Gróðursetning í Bláfjöllum