Afrek Ullunga í Orkugöngunni/Buchgöngunni

Það hefur dregist óhóflega að greina frá afrekum Ullunga í Orkugöngunni/Buchgöngunni. Nú hefur einn keppenda Ullar, Gísli Óskarsson, sent vefnum nokkrar línur og myndir og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

Gangan fór fram 20. apríl síðastliðinn við nokkuð góðar aðstæður, veður var þó svolítið hryssingslegt í upphafi en batnaði þegar á leið. Fjórir Ullungar mættu til leiks, þau Gunnlaugur Jónasson, Þórhallur Ásmundsson og Kristjana Bergsdóttir gengu 50 km en Gísli Óskarsson 20 km. Öll stóðu þau sig prýðilega en hæst ber gullverðlaun Gunnlaugs og bronsverðlaun Þórhalls í flokki 50 ára og eldri. Kristjana varð í fjórða sæti í sínum flokki og Gísli hlaut bronsverðlaun í sínum flokki.
Þingeyingar veittu vegleg verðlaun að vanda, verðlaunagripir voru handgerðir úr gifsi og tré, en auk þess gáfu fyrirtæki varning sem dreginn var út í lokahófinu. Gísli kom þaðan alsæll enda fékk hann reykt silungsflak. Það kalla Þingeyingar saltreyð eða reyð.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur