Við höfum verið heppin með veður í vetur. Í morgun var í fyrsta sinn lokað í Bláfjöllum á æfingadegi en nægur snjór hér niðurfrá til þess að fara á skíði, sem við gerðum. Æfing dagsins fór fram á túninu við Árbæjarsafn. Þóroddur hafði gengið nokkra hringi svo við höfðum spor. Aðstæður voru hinar fínustu og veðrið mjög gott, sól og blíða.
Æfingin gekk út á að leika okkur í snjónum. Við gengum nokkra upphitunarhringi en slepptum svo stöfunum og fórum í stórfiskaleik, fyrst á báðum skíðunum og síðan bara öðru. Eftir leikinn fórum við í dettikeppni í smá brekku. Hún fór rólega af stað en eftir nokkrar æfingadettur sýndu krakkarnir frábær tilþrif. Ein fór í kollhnís á skíðunum á leiðinni niður brekkuna og eftir það gátum við hin hætt að reyna.
Það var svo gaman í brekkunni að æfingin varð hálftíma lengri en venjulega. Við renndum okkur aftur á bak, á öðru skíðinu, tvö saman föst í sitthvort skíðið, á öðru skíðinu þrjú saman með kræktar hendur og alls konar útfærslur. Krakkarnir hjálpuðust að við að byggja stökkpall og kepptust við að hoppa sem hæst, lengst og oftast.
Eftir æfinguna tók ekki síðra við, öllum hópnum var boðið í heitt kakó og skonsur til Ellu og Óskars.