Kæru félagar í Ulli.
Nú á næstu vikum, þ.e. þegar amstri jóla og áramóta lýkur, mun vetrarstarfið bresta á af fullum þunga, enda erum við búin að leggja inn pöntun fyrir ríflegu magni af snjó. Fyrsta sending kom á dögunum og von er á meiru fljótlega.
Til að starfið gangi sem best, þurfa félagar að vera virkir og því ætlum við að ná sem flestum á kynningarfund félagsins sem haldinn verður annað kvöld, miðvikudaginn 6. desember kl. 20:00 í húsnæði ÍSÍ í Laugardal.
Hverjum alla áhugasama til að mæta og takið gjarnan með gesti, sem hafa hug á að prófa þá frábæru íþrótt sem skíðagangan er.
Öllum skráðum félögum ætti nú að hafa borist greiðsluseðill á heimabanka og í dag hefur stór hluti okkar greitt árgjaldið, sem er gleðiefni. Fyrir það erum við þakklát!
Við viljum því hvetja þá sem eiga eftir að greiða árgjaldið að gera það sem fyrst, til að þeir geti framvísað skírteini þegar þeir sækja um árskort á skíðasvæðin, því skírteinið veitir góðan afslátt af þeim kaupum.
Félagsskírteini verða send út á næstunni, en ef félagsskírteini hefur ekki borist við kaup á árskorti á skíðasvæðin, er hægt að framvísa kvittun vegna greiðslu árgjalds.
Jafn lítið félag og Ullur er, þarf á framlagi allra félaga að halda til að hægt sé að halda uppi öflugu starfi. Nú í haust hafa verið unnar miklar endurbætur af harðduglegum sjálfboðaliðum á skálanum og samstarf við skíðasvæðin eflt upp á að halda úti góðum troðnum brautum við hæfi allra. Þessu fáum við áorkað með öflugu starfi sem kostar sitt.
Það stefnir í glæsilegan skíðavetur og það er undir okkur öllum komið hversu öflugt félagsstarfið verður.
Aðventu- og skíðakveðja
Stjórn Ullar.